Fundarlotu í kjaradeilu flugumferðarstjóra og SA átti að vera framhaldið kl. 10 í morgun hjá Ríkissáttasemjara. Samninganefndirnar funduðu í sitt hvoru lagi en enginn sameiginlegur fundur var haldinn í morgun.
Snúin staða
Aldís Magnúsdóttir sáttasemjari í deilunni ákvað svo á öðrum tímanum í dag að fresta fundi. Annar fundur í deilunni hefur ekki verið boðaður.
„Staðan er býsna snúin. Við höfum ákveðið að fresta fundi í bili. Ég mun vera í sambandi við samningsaðila á næstu dögum og ákveð þá hver næstu skref verða. Þetta er snúin staða. Það ber talsvert á milli,“ segir Aldís.
Aðspurð hvort samninganefndirnar hafi fengið einhver skilaboð segir Aldís:
„Skilaboðin eru að taka tvö skref afturábak og bakka úr þeirri stöðu sem við erum í núna. Stundum er gott að bakka og horfa yfir landið og miðin og sjá hvort við sjáum ekki einhverja nýja lausn.“
Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA sagði í fréttum í gær þegar sé búið að bjóða flugumferðarstjórum það sama og aðrar stéttir fengu í síðustu kjaraviðræðum. Launahækkun að hámarki 66 þúsund krónur. Arnar Hjálmsson formaður félags flugumferðarstjóra sagði þá að enn væri langt á milli í kjaradeilunni. Sú stétt sem flugumferðarstjórar bæru sig við í kjaraviðræðunum væru atvinnuflugmenn.
Fréttin hefur verið uppfærð.