Yfirvöld í Suður-Kóreu og Japan segja að um svokallaða ICBM sé að ræða sem geti drifið allt að fimmtán þúsund kílómetra, með því að fljúga út í geim. Líklegt þykir að eldflaugin hafi verið af gerðinni Hwasong-18. Þetta er í fimmta sinn á þessu ári sem eldflaug af þessari gerð er skotið á loft frá Norður-Kóreu.
Vísindamenn og verkfræðingar Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu, hafa um árabil unnið að þróun kjarnorkuvopna og eldflauga sem geta borið þau vopn til Bandaríkjanna. Bæði þróun kjarnorkuvopna og þróun eldflauga fer gegn samþykktum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Reuters hefur eftir starfsmönnum varnarmálaráðuneytis Japans að eldflaugin hafi flogið í 73 mínútur. Hún náði rúmlega sex þúsund kílómetra hæð og féll í hafið milli Japans og meginlandsins.
Í gærkvöldi var skammdrægri eldflaug skotið frá Norður-Kóreu en hún flaug um 570 kílómetra áður en hún féll í hafið.
Eftir það gáfu yfirvöld í Norður-Kóreu út yfirlýsingu þar sem Bandaríkjamenn voru fordæmdir fyrir „forsýningu“ á kjarnorkustyrjöld, með því að sigla kjarnorkuknúnum kafbáti til hafnar í Suður-Kóreu í gær.
Vilja kjarnorkvopn í Suður-Kóreu
Erindrekar frá Suður-Kóreu og Bandaríkjunum funduðu á föstudaginn um það að Bandaríkjamenn komi mögulega aftur fyrir kjarnorkuvopnum í Suður-Kóreu. Kannanir hafa sýnt að íbúar Suður-Kóreu óttast kjarnorkuvopn Kim og vilja eigin kjarnorkuvopn.
Sjá einnig: Vilja eigin kjarnorkuvopn af ótta við Norður-Kóreu
Eins og sagt var í nýlegri frétt AP fréttaveitunnar óttast Suður-Kóreumenn að bandarískur forseti myndi ekki beita kjarnorkuvopnum til að verja Suður-Kóreu gegn áras frá Norður-Kóreu, af ótta við að Norður-Kóreumenn myndu skjóta kjarnorkuvopnum að Bandaríkjunum.
Milli sjötíu og áttatíu prósent íbúa Suður-Kóreu vilja að ríkið eignist eigin kjarnorkuvopn eða að Bandaríkjamenn flytji aftur kjarnorkuvopn þangað. Þau vopn voru fjarlægð á tíunda áratug síðustu aldar.
Á fundi erindrekanna var samkvæmt Yonhap fréttaveitunni, samþykkt að vinna að sameiginlegri kjarnorkuvopnastefnu á næsta ári og halda heræfingar þar sem líkt verður eftir kjarnorkuárásum úr norðri.