„Það má segja að nóttin hafi verið tíðindalítil hérna alla vega í samhæfingarstöð almannavarna í Skógarhlíðinni. Það er samt þannig ða þau sem voru á vettvangi þurftu að hafa aðeins meira fyrir því sem var að gerast í nótt. Það voru nokkrir sem vildu gjarnan sjá þetta eldgos, sem við skiljum vel, en þá var meira að gera hjá þeim en okkur,“ segir Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna.
„Það voru nokkrir sem vildu berja þetta augum en tilmælin eru þau að halda sig frá þessu, þó það sé ekki nema vegna þess að viðbragðsaðilar eru ekki á staðnum. Þó lögreglan á Suðurnesjum sé með lokunarpósta finnur fólk sér leið eins og vatnið.“
Aðstæður til göngu í myrkri ekki góðar
Helstu áhyggjur viðbragðsaðila beinist að því að fólk fari af stað í langa göngu, gegn um hraunið í lélegu skyggni og köldu veðri.
„Það getur farið illa og það var til dæmis einn sem þurfti að fá aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar til að koma sér heim.“
Það sé ekkert grín að vera þarna úti.
„Ég held að þrátt fyrir að þú heyrir almannavarnir, lögregluna og viðbragðsaðila alla segja það þá hugsi fólk: Ég get þetta. En það er kannski ekki alltaf þannig og ég held að þessi sem var sóttur sé sáttur að vera kominn heim heill og höldnu. Aðstæðurnar eru ekki góðar til að vera á gangi í þessu myrkri,“ segir Hjördís.
Nýtt hættumat var gefið út af Veðurstofunni í gærkvöldi. Hjördís segir það brýna fyrir fólki að aðstæðurnar séu hættulegar og fara þurfi varlega.
„Þrátt fyrir að minni kraftur hafi verið í eldgosinu þýðir það ekki að ekki geti opnast nýjar sprungur eða að ýmsir hlutir sem náttúran tekur upp á geti hafist. Hættumatið sýndi okkur það að við þurfum áfram að vera á tánum.“
Öðruvísi jól fyrir Grindvíkinga
Hjördís segir skipulag viðbragðsaðila vera svipað í dag og í gær. Mest mæði á þeim sem eru í vettvangsstjórn á Suðurnesjum. Boðað hefur verið til upplýsingafundar í Skógarhlíð klukkan 14 í dag.
„Það er ekki síst verið að halda þann fund til að upplýsa Grindvíkinga, sem þurfa að fá svör og halda þeim upplýstum um stöðu málan. Það er eitt að vera með eldgos í bakgarðinum en svo eru það allir hinir óvissuþættirnir sem Grindvíkingar þurfa svör við,“ segir Hjördís.
„Það eru að koma jól og við viljum öll bara hafa það notalegt um jólin. Þetta verða öðruvísi jól fyrir Grindvíkinga.“
Og alveg ljóst að fólk sé ekki á leið aftur heim?
„Ég held að það sé, þó ég ætli ekki að fara að fullyrða um það, á meðan eldgos er í bakgarðinum og hættumat Veðurstofunnar eins og það er núna þá erum við að halda okkur á sömu línu.“