Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Guðna Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, við fyrirspurn sem Vísir hafði sent fyrr í dag.
Icelandair hafði verið í samskiptum við Boeing vegna málsins og hefur nú fengið staðfest að ekki þurfi að kyrrsetja neina af þeim fjórum Boeing 737 Max 9-flugvélum sem flugfélagið á.
Flugvél Alaska Airlines var á leið frá Portland í Oregon-ríki í Bandaríkjunum til Kaliforníu og hafði verið á lofti í skamma stund þegar hluti vélarinnar féll af henni með þeim afleiðingum að stórt gat myndaðist í farþegarýminu. 177 farþegar voru um borð en engan sakaði.