Stéttarfélögin sem semja nú í sameiningu við Samtök atvinnulífsins komu saman í höfuðstöðvum VR klukkan tíu í morgun til að ræða framhald kjaraviðræðna. Viðræðurnar eru komnar í uppnám. SA hefur lýst því yfir að kröfur stéttarfélaganna séu of miklar og að fara eigi blandaða leið, en ekki bara fara fram með krónutöluhækkunum eins og félögin hafa farið fram á.
Hvernig blasir staðan við þér núna?
„Hún er bara mjög alvarleg en hópurinn er mjög þéttur, mikil samstaða innan okkar raða. Við erum að fara að funda og ræða næstu skref, boltinn er hjá Samtökum atvinnulífsins og við erum að reyna að vinna á þeirri stöðu sem er komin upp,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, áður en fundur hófst í morgun.
Staðan kemur á óvart
Hann segir stöðuna sem upp er komin nokkuð óvænta, enda hafi verið mikil samstaða milli samningsaðila í upphafi viðræðna.
„Okkar hugmyndafræði og okkar kröfur hafa legið fyrir frá upphafi viðræðna og út frá því kom þessi jákvæði tónn hjá Samtökum atvinnulífsins. Þannig að já, þessi afstaða SA kemur verulega á óvart - að þegar reynir síðan á - að þau séu ekki tilbúin að fara í þessa vegferð. Það er auðvitað mjög óvænt og mikil vonbrigði.“
Hann segir umræðu um hvort deilunni verði nú vísað til ríkissáttasemjara meðal fundarefna í dag. Fjórtán dagar eru þar til kjarasamningar renna út. Inntur eftir því hvort hann telji líklegt að samningar náist fyrir þann tíma segist Ragnar bjartsýnn.
„Miðað við þá hugmyndafræði sem við lögðum upp með mun það taka töluverðan tíma að koma því saman. Ef við förum í annan fasa verður að koma í ljós hvernig málin þróast. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn á framhaldið þrátt fyrir stöðuna, við verðum bara að sjá hvað kemur í ljós eftir fundinn.“
Ódýrara fyrir ríkið að taka þátt í baráttunni
Stéttarfélögin hafa þá kallað eftir því að stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, komi til móts við vinnumarkaðinn í baráttunni gegn verðbólgunni. Það getur ríkið til dæmis gert með hækkun barna- og vaxtabóta og sveitarfélögin með því að takmarka gjaldskrárhækkanir svo fátt eitt sé nefnt.
Ragnar segir breytta stöðu ríkisins og ríkissjóðs vegna náttúruhamfaranna í Grindavík ekki eiga að hafa áhrif á aðkomu þess að kjaramálunum.
„Miðað við markmið okkar að ná niður vaxtakostnaði, stýrivöxtum, hratt og vel og verðbólgu hefur það gríðarleg áhrif á afkomu sveitarfélaga og ríkisins. Ávinningurinn fyrir ríkið og sveitarfélögin er miklu meiri að ná niður vaxtagjöldum heldur en kostnaðurinn við að koma að samningunum með þeim hætti sem við höfum lagt upp,“ segir Ragnar.
„Þetta ætti ekki að trufla. Sömuleiðis er staðan í Grindavík staða sem við erum að eiga við þar sem á annað þúsund félagsmenn okkar eru á svæðinu og við höfum verið að beita okkur fyrir aðgerðum hins opinbera til að taka utan um þetta fólk, meðal annars með uppkaupum á fasteignum og fleiru.“