Æfingarnar bera nafnið Steadfast Defender 24 og munu eiga sér stað vísvegar um Evrópu. Þær munu meðal annars leika eftir átök á meginlandinu, í austurhluta Evrópu, og þá munu flotar NATO æfa birgðaflutninga yfir Atlantshafið, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.
Steadfast Defender er haldin árlega en umfang æfinganna er að þessu sinni miklu meira en áður. Varnarmálaráðherra Bretlands sagði á dögunum að æfingarnar væru þær stærstu hjá NATO í fjörutíu ár.
Í frétt Reuters segir að síðasta sambærilega heræfing NATO hafi farið fram árið 1988 og kallast Reforger en að henni komu um 125 þúsund hermenn.
Við æfingarnar verður notast við rúmlega fimmtíu herskip, allt frá flugmóðurskipum niður í tundurspilla og kafbáta. Þá verða notaðar fleiri en áttatíu herþotur, þyrlur og drónar og minnst 1.100 skriðd- og bryndrekar.

Markmiðið er að sýna að að bandalagið getur varið öll aðildarríki.
Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, sem hófst í febrúar 2022, hefur Finnland gengið til liðs við bandalagið og Svíar hafa einnig sótt um inngöngu. Bandalagið hefur aukið varnir sínar í Austur-Evrópu og heræfingunum er einnig ætlað að senda skilaboð til Moskvu um að innrás í aðildarríki sé ekki í boði.
Exercise #SteadfastDefender24 will be the largest NATO exercise in decades, with 90,000 forces from all 31 Allies and Sweden.
— NATO (@NATO) January 19, 2024
It will demonstrate our transatlantic unity, strength, and ability to deploy forces rapidly, across thousands of kilometres, in any conditions pic.twitter.com/S0maGowj9A
Christopher Cavoli, æðsti herforingi NATO, segir að æfingarnar muni líkja eftir átökum við andstæðing með álíka hernaðargetu og bandalagið. Þær muni sýna fram á styrk aðildarríkja, samstöðu og viljafestu í sameiginlegum vörnum.
Samkvæmt nýjum varnaráætlunum NATO eru helstu andstæðingar samtakanna Rússland og hryðjuverkasamtök.
Rússar eru þó hvergi nefndir á nafn í yfirlýsingum NATO.

Samkvæmt svörum talsmanns utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Vísis munu æfingar ekki fara fram hjá á Íslandi. Fulltrúar Íslands í herstjórnarkerfi NATO, í SHAPE í Belgíu, Norfolk í Bandaríkjunum og Northwood í Bretlandi, munu þó koma að undirbúningi æfinga og framkvæmd.
Líklegt er að einhver aukning verði í umferð herskipa og herflugvéla á Norður-Atlanshafi á meðan á æfingunum stendur.
@NATO's biggest exercise in decades, #SteadfastDefender24, will showcase in the upcoming months the Alliance's unwavering commitment to collective defence and its ability to protect 1 billion Allied citizens pic.twitter.com/3zD2swlAFR
— SHAPE_NATO Allied Command Operations (@SHAPE_NATO) January 19, 2024