„Já, já. Við erum að berjast fyrir einhverju sem er risastórt – að komast á Ólympíuleika. Það eitt og sér gerir leikina sem eftir eru risastóra fyrir okkur. Ég held að það verði ekkert erfitt fyrir menn að gíra sig upp í þetta. Auðvitað er erfitt að kyngja tapinu [gegn Þýskalandi] en mér fannst drengirnir sýna úr hverju þeir eru gerðir [í fyrradag],“ sagði Snorri á hóteli landsliðsins í gær.
Leikurinn við Frakka, sem eru eina liðið með fullt hús stiga í milliriðli Íslands, hefst klukkan 14:30 að íslenskum tíma.
„Það þarf ekkert að fara yfir Frakkana. Teldu bara upp gaurana sem eru í þessu liði og þá sérðu að þetta er heimsklassalið sem getur unnið mótið. Við þurfum að nálgast leikinn eins og gegn Þýskalandi. Halda áfram að bæta okkur og koma með þetta hjarta og þennan vilja. Sjá hvert það leiðir okkur,“ sagði Snorri.
„Með frábært teymi í kringum mig“
Stórmót í handbolta er mikil törn, sérstaklega fyrir þjálfarann sem getur eflaust alltaf fundið ástæður til að undirbúa betur komandi leik, á kostnað svefntíma:
„Mér hefur bara gengið þokkalega með það. Ég er með frábært teymi í kringum mig sem gerir alveg fáránlega mikið fyrir mann, og passar upp á mann. Ég hef alveg náð að hvílast. En ég er ekkert með þrettán tíma á bakinu, ég viðurkenni það alveg,“ sagði Snorri og tók undir að erfitt hefði verið að kyngja tapinu gegn Frökkum:
„Það svíður inn að beini. Engin spurning. Þetta snýst um að vinna leiki og ná í stig, og við náðum því ekki í gær. Frammistaðan var góð. Menn lögðu líf og sál í leikinn, og það er ákveðinn útgangspunktur sem við verðum að hafa. Við sáum fyrst í gær, almennilega, hvað við stöndum fyrir. Auðvitað gerir það mann glaðan. En það breytir ekki staðreyndinni að það var innistæða fyrir meiru í þessum leik.“
Hvað svíður mest?
„Það er auðveldast að benda á færanýtinguna og vítin. Þegar þú ert í eins jöfnum leik og hugsast getur, gegn Þjóðverjum á þeirra heimavelli, þá svíður það mikið.“
Næsti leikur Íslands á EM er gegn Frakklandi í dag klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Öflugt teymi Vísis og Stöðvar 2 er í Þýskalandi og fjallar um mótið í máli og myndum.