Ekki er ljóst í hvaða deild HK verður þegar Halldór tekur við liðinu en hann mun taka til starfa eftir yfirstandandi tímabil, og er samningur hans til þriggja ára.
HK er í fallbaráttu í Olís-deildinni með 7 stig eftir 13 umferðir, stigi fyrir ofan neðstu liðin sem eru Víkingur og Selfoss.
Í síðasta mánuði var greint frá því að Sebastian Alexandersson, sem stýrt hefur HK frá 2021, myndi hætta þjálfun liðsins í vor, sem og aðstoðarþjálfarinn Guðfinnur Kristmannsson.
Halldór Jóhann er í dag þjálfari Nordsjælland í Danmörku en hann tók við liðinu í fyrrasumar eftir að hafa þjálfað hjá Team Tvis Holstebro. Fyrir skömmu var greint frá því að Halldór myndi hætta hjá Nordsjælland í vor og sagt að fjölskylduaðstæður réðu því.
Halldór hefur þjálfað lengi og meðal annars stýrt Fram, FH og Selfoss hér á landi, auk þess að þjálfa yngri landslið og vera aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins. Þá hefur hann stýrt karlalandsliði Barein.