Fylkingarnar funduðu í allan gærdag eftir tæplega viku hlé. Eftir fund á fimmtudag í síðustu viku fannst forystufólki breiðfylkingarinnar ekki ástæða til frekari fundarhalda. Hreyfing komst hins vegar á málin í gær eftir að samningsaðilar komust að samkomulagi um viðræðugrundvöll, að sögn Ástráðs Haraldssonar ríkissáttasemjara.
Ríkissáttasemjari ákvað jafnframt að setja samningsaðila í fjölmiðlabann. Það hefur oft verið gert í gegnum tíðina þegar ætla má að farið sé að sjá til lands í kjaraviðræðum. Um 93 prósent félagsmanna á almenna vinnumarkaðnum tilheyra félögum innan breiðfylkingarinnar.
Þrátt fyrir fjölmiðlabann náði fréttamaður að kreista nokkur orð út úr Vilhjálmi Birgissyni formanni Starfsgreinasambandsiins á leið til fundar í morgun. Hann segir frábært að IKEA hafi tilkynnt í morgun tæplega sex prósenta lækkun á verði um sex þúsund vörutegenda varanlega út þetta ár.
„Og er bara gott innlegg í það sem við erum að gera hér. Því megin markmið okkar með þessari vinnu sem er á bakvið þessar dyr er nákvæmlega að ná niður verðbólgu og vöxtum sem eru að leika íslensk heimili grátt. Þannig að þetta eru afar jákvæ tíðindi," sagði Vilhjálmur.
Umfang IKEA í verslun á Íslandi er mjög mikið og ekki útilokað að þessi mikla verðlækkun hafi áhrif á neysluvísitöluna og þar með verðbólguna.
„Það gæti gert það. Þetta er stór verslun sem er þarna undir og þetta getur klárlega gert það. Síðan hefur náttúrlega legið fyrir núna að BYKO ákvað að frysta vöruverð hjá sér í sex mánuði. Þannig að núna bíður maður bara eftir tíðindum frá fleiri fyrirtækjum um að þau geri slíkt hið sama," segir Vilhjálmur Birgisson.