Dúfan var fönguð í Mumbai í maí en þá fundust hringir um fætur hennar og bar hún kínverska stafi á vængjunum. Lögregluþjóna grunaði, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar, að dúfan hefði verið notuð við njósnir og var henni því haldið á dýrasjúkrahúsi.
Á þriðjudaginn var dúfunni hinsvegar sleppt. Þá hafði komið í ljós að hún kæmi frá Taívan, þar sem hún var þjálfuð fyrir keppnir milli dúfueigenda. Hún hafði þó flúið frá eigendum sínum í Taívan í keppni og flogið alla leið til Indlands.
Indverjar og Kínverjar hafa lengi eldað grátt silfur saman og deila um landamæri ríkjanna í Himalæjafjöllum. Til stríðs kom milli ríkjanna árið 1962 en það unnu Kínverjar með nokkuð afgerandi hætti. Á undanförnum árum hafa hermenn ríkjanna af og til slegist með berum hnúum og/eða kylfum.
Þessi átök hafa verið mannskæð.
Sjá einnig: Indverjar og Kínverjar börðust á umdeildum landamærum
Dúfur hafa lengi verið notaðar til að senda skilaboð manna á milli og þar á meðal til njósnara og útsendara ríkja í hernaði. Það var til að mynda dúfa sem kallaðist Gustav, sem bar fyrstu fregnir af lendingu bandamanna á ströndum Normandy í seinni heimsstyrjöldinni.
Í frétt AP segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem dúfa er grunuð um njósnir í Indlandi eða önnur brot. Árið 2020 var dúfa sjómanns frá Pakistan handsömuð í Kasmír-héraði vegna gruns um að hún hefði verið notuð við njósnir.
Þá fannst dúfa árið 2016 sem bar bréf sem á var búið að skrifa hótun til Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.