Á mánudaginn bárust fréttir af því að óviðeigandi hegðun Horners í garð starfsmanns Red Bull sé til rannsóknar. Red Bull sagðist taka ásakanirnar mjög alvarlega og hóf rannsókn á þeim.
Í samtali við De Telegraaf í Hollandi hafnaði Horner ásökununum. Red Bull hefur ekki gefið út hvað felst nákvæmlega í þeim en enskir fjölmiðlar greina frá því að þær snúi að óviðeigandi og stjórnsamri hegðun Honers í garð kvenkyns starfsmanns.
Utanaðkomandi aðili sér um rannsóknina á hegðun Horners og á föstudaginn verður hann yfirheyrður.
Horner hefur verið liðsstjóri hjá Red Bull síðan liðið byrjaði að keppa í Formúlu 1 2005. Síðan þá hefur liðið sjö sinnum orðið heimsmeistari ökuþóra og sex sinnum heimsmeistari bílasmiða. Á síðasta tímabili vann Red Bull 21 af 22 keppnum og Max Verstappen varð heimsmeistari með miklum yfirburðum. Næsta tímabil í Formúlu 1 hefst 2. mars.