Þetta kemur fram í samantekt FF7. Þar kemur fram að árið 2021 í árdaga Play, sem skilgreinir sig sem lággjaldaflugfélag ólíkt Icelandair, hafi kostað 3.100 krónur að innrita 20 kílógramma tösku. Þremur árum síðar hefur gjaldið meira en tvöfaldast og kostar að lágmarki 6.715 krónur fyrir 23 kílógramma tösku sem Play bætti við sem möguleika í fyrra ofan á 20 kílógramma töskuna.
Töskugjaldið hjá Icelandair hefur hækkað um fjórðung á milli ára og er komið í 6.600 krónur aðra leið. Icelandair rukkar allt að 4.700 krónur fyrir að flytja skíði en Play 8.500 krónur.
FF7 hefur heimildir fyrir því að stjórnendur Play hafi í yfirstandandi hlutafjáraukningu bent fjárfestum á að farþegar félagsins borgi að jafnaði nokkru meira fyrir svokallaða aukaþjónustu. Töskugjöld eru þeirra á meðal. Hækkunin hafi numið 25 prósentum sumarið 2023 frá því sem var sumarið 2022.
Hækkun töskugjalda er ekki séríslenskt fyrirbæri. Síðast í gær var greint frá því að American Airlines hefði hækkað töskugjöld sín um þriðjung og væri nú með dýrustu töskugjöldin vestanhafs eða sem næmi fjörutíu dollurum eða rúmlega fimm þúsund krónum. Flugfélagið benti á að um væri að ræða fyrstu hækkun á verði fyrir tösku frá árinu 2018. CNN segir hækkunina koma á tímum þar sem flugfélög vestan hafs heyi erfiða baráttu vegna aukins kostnaðar vegna eldsneytis og vinnuafls.
Fram kom í tilkynningu frá Play í gær að tekist hefði að safna 2,6 milljörðum króna í hlutafjárútboðinu með þeim fyrirvara kaupenda að heildarsöfnunin næði fjórum milljörðum króna.