„Ég hef verið leiðsögumaður í nítján ár en aldrei séð svona öldugang,“ segir Tatjana Jastsuk leiðsögumaður og eigandi Aurora Tours í samtali við Vísi. Hún fékk leyfi frá ferðamönnum sínum sem urðu vitni að atvikinu til þess að birta myndbandið en sjálf var hún ekki á staðnum.
Tatjana segir ljóst að ferðamennirnir á brúnni á Arnarstapa hafi verið gríðarlega heppnir. Ljóst sé að töluvert verr hefði getað farið, enginn hafi slasast. Tatjana segist alltaf vara sína hópa við að fara að öllu með gát í grennd við sjó.
„En svo hefur maður nú aldrei séð neitt þessu líkt við Arnarstapa, þannig það er kannski erfitt að vara einhvern við svona öldugangi sem maður hefur aldrei séð áður,“ segir Tatjana.
Hún segir þetta ekki bara eiga við um Arnarstapa heldur fleiri staði líkt og Djúpalónssand og við Reynisfjöru. Vísir greindi frá því í gær að öldur hefðu farið alla leið yfir bílastæðið við fjöruna í Reynisfjöru. Um er að ræða sama dag og atvikið við Arnarstapa átti sér stað, síðastliðinn þriðjudag.
Tatjana segir veðrið alla jafna verra á þessum tíma líkt og allir viti. „En maður hefur aldrei séð þetta svona. Þetta eru risastórar öldur.“
Fjallað var um hættuna við strendur landsins í kvöldfréttum Stöðvar 2. Fréttina má sjá að neðan.