Hér má sjá viðtalið við Ástrós í heild sinni:
Í viðtalinu er fjallað um átröskun. Hér má lesa nánar um átröskun og úrræði sem eru í boði. Hér má kynna sér hagsmunasamtökin SÁTT. Bráðageðdeild er í síma 5431000.
„Ég fór inn á Hvítabandið, greindist með átröskun og var orðin lasin eftir mörg ár í íþróttinni minni. Sömuleiðis var alls konar persónulegt sem olli því. Það var rosalega mikil vinna að leggjast þar inn. Það erfiðasta við það myndi ég segja var að hafa ákveðið að fara inn, að játa fyrir sér að þú sért á þessum stað og þetta sé það sem þú þarft að gera.
Vinnan sem kom út frá þessu var rosalega erfið. Ég þurfti að horfast í augu við svo margt og læra mjög mikið. Það var vissulega það besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig að fara þangað inn og gera þessa breytingu á mínu lífi,“ segir Ástrós og bætir við að það séu komin rúm átta ár síðan þetta gerðist. Henni þyki mikilvægt að geta rætt þetta opinskátt og sérstaklega sagt frá því hvert hún er komin en sjúkdómurinn er henni mjög fjarlægur í dag.

Valdi blessunarlega að leita sér hjálpar
Ástrós segist hafa leitað sér hjálpar af sínu frumkvæði og það hafi verið ómetanlega mikilvægt skref. Hvítaband Landspítalans breytti lífi hennar fyrir rúmum átta árum síðan.
„Ég bjó í Frakklandi á þessum tíma og var að dansa þar. Ég lenti upp á spítala með næringarskort og það var ekki í fyrsta skipti. Ég veit ekki hvort vítahringurinn hafi gerst eitthvað ákveðið oft hjá mér en ég endaði þarna bara á vegg.
Þá fékk ég svona móment þar sem ég hugsaði: Annað hvort ertu bara að fara að vera óhamingjusöm, lifa lífi þínu svona og ég veit ekki hvort þú lifir þetta af eða þú gerir eitthvað í þessu og breytir þessu. Sem betur fer valdi ég seinni leiðina. Ég er komin rosalega langt frá átröskuninni í dag.“
Einnig er hægt að hlusta á þáttinn á Spotify.