Þetta segir Phil Chetwynd, fréttastjóri AFP, í samtali við útvarpsþáttinn Media Show á BBC 4. Nú er hirð hjónanna ekki lengur flokkuð sem „trusted source“ og verða því allar ljósmyndir sem koma úr þeirra herbúðum í framtíðinni skoðaðar ítarlega áður en þær eru birtar hjá fréttaveitunni.
Chetwynd segir myndbirtinguna hafa skapað mikið vesen fyrir fréttaveituna. Hún hefði, að hans sögn, aldrei átt að birta myndina þar sem myndin var í trássi við ritstjórnarreglur.
Katrín hefur beðist afsökunar á „ruglingnum“ sem myndin olli og sagðist í yfirlýsingu hafa átt við myndina sjálf, eins og margir áhugaljósmyndarar. Kensington höll, hirð Katrínar og Vilhjálms, hefur ekki bætt neinu við yfirlýsingu Katrínar en neitað að birta upprunalegu myndina, sem Vilhjálmur er sagður hafa tekið á þessu ári.
Myndin birtist í fjölmiðlum út um allan heim á sunnudag. Myndin var afturkölluð af myundaveitum eftir að í ljós kom að átt hafði verið við hana og gáfu út svokallað „kill notice“ skömmu eftir að hún fór í dreifingu.
Chetwynd segir að tilkynning hafi verið send öllum innan AFP um að Kensington væri ekki hægt að treysta lengur og að skoða þurfi vel allar myndir sem sendar eru inn til veitunnar. Það sé þá nokkuð óalgengt að gefin sé út svokölluð „kill notice“.
„Að drepa eitthvað vegna þess að átt hefur verið við það er mjög óalgengt. Við gerum það kannski einu sinni á ári, sjaldnar vona ég. Þau skipti sem það hefur verið gert er vegna mynda sem borist hafa frá ríkisútvarpi Norður-Kóreu eða ríkisútvarpi Íran.“