,Ég held ekki þrátt fyrir hvatningu margra að ég eigi skilyrðislaust að fara í framboð en ég vil að fólk viti að ég er að hugleiða það af alvöru,“ segir Steinunn Ólína leikkona í samtali við Vísi.
Steinunn hefur ritað viðhorfsgrein sem hún birti í Vísi nú rétt í þessu þar sem hún gefur því rösklega undir fótinn að hún sé að íhuga forsetaframboð. Greinin er undir yfirskriftinni „Bréf til þjóðarinnar“ og þar segir hún meðal annars:
„Ég er alvarlega að hugleiða að gefa kost á mér til embættis forseta Íslands af fullum heilindum, nú eldri og lífsreyndari. Þar vegur þyngst hvatning bláókunnugs fólks úr röðum almennings frá áramótum. Hvatning frá fólki sem finnst það þekkja mig, þykist vita hvar það hefur mig, hefur lesið það sem ég hef skrifað um samfélagsmál, og sem veit að ég hef persónulega staðist erfiðar áskoranir í lífinu og hræðist ekki mótlæti.“
Áður hafði Steinunn rakið ítarlega hvers má vænta af forseta landsins og hvað má prýða einn slíkan. Hún segir að það hafi aldrei þvælst fyrir sér að vera þjóðþekkt persóna.
„Mér þykir ævinlega vænt um það þegar fólk gefur sig á tal við mig. Við erum lítið samfélag þar sem allir þekkja alla og það er notalegt. Fólk segir mér líka óspart til syndanna ef því er að skipta og það er bara gott á mig. Það hefur orðið mér hvatning til að líta í eigin barm og freista þess að skilja aðra fremur en afskrifa, sem er flóttaleið sem útheimtir enga sjálfsskoðun. Ég trúi að þátttaka í mótun samfélags sé skylda hverrar manneskju sem trúir á og vill verja lýðræðið.“
Steinunn segist hafa tjáð sig talsvert um samfélagsmál og þá ávallt talað út frá eigin brjósti, aldrei til að þóknast kröfum annarra. „Ég kann að meta hreinskiptin samskipti og vil að í lýðræðissamfélagi geti fólk tjáð sig óhikað án þess að eiga á hættu útskúfun og útilokun.“
Þá nefnir Steinunn Ólína að hún hafi aldrei haft klappstýrur og jáfólk í kringum sig. Hún segir jafnframt að ef hún gefi kost á sér í komandi forsetakosningum muni hún gera það af heilum hug. „Af djúpu þakklæti fyrir að fæðast í þessu fallega og örugga landi og hafa notið þess atlætis sem raun ber vitni.“