Myndin mun bera heitið Bridget Jones: Mad About the Boy og mun Renee Zellweger auðvitað fara með hlutverk Bridget að nýju. Þá munu þau Emma Thompson og Hugh Grant einnig mæta aftur í gömlum hlutverkum. Nýja myndin byggir á nýjustu bókinni um Bridget eftir höfundinn Helen Fielding sem ber einmitt sama nafnið. Bókin kom út árið 2013.
Fyrsta myndin með Renee Zellweger í aðalhlutverki og þeim Colin Firth og Hugh Grant kom út árið 2001 og sló í gegn á heimsvísu. Árið 2004 kom svo út framhald, Bridget Jones: The Edge of Reason. Árin liðu og það var ekki fyrr en árið 2016 sem þriðja myndin um þessa seinheppnu fréttakonu kom út. Við það tilefni eignaðist hún barn líkt og fram kemur í titli myndarinnar: Bridget Jones's Baby.
Í nýju myndinni sem kemur út á næsta ári er Bridget orðin tveggja barna móðir á sextugsaldri. Hún er í þokkabót orðin ekkja þar sem elskhugi hennar Mark Darcy, leikinn af Colin Firth, er látinn. Sérstaka athygli vekur að Hugh Grant mun spila stærri rullu í fjórðu myndinni sem Daniel Cleaver en hann kom svo gott sem ekkert við sögu í þeirri þriðju.
Stikluna fyrir þriðju myndina má horfa hér fyrir neðan.