Þórdís segist tilbúin að takast á við verkefnin eftir hálfs árs fjarveru. Það hafi ýmislegt gerst á hálfu ári. Evrópa sé ekki á öruggari stað og það sé skýrt hver verkefnin eru sem blasi við.
„Ég hlakka til að hefja hér störf að nýju,“ segir Þórdís Kolbrún.
hún segir stóru viðfangsefnin þau sömu og fyrir sex mánuðum, þegar hún síðast sinnti embætti utanríkisráðherra, en að það séu meiri átök og spenna í heiminum. Það þurfi að huga vel að öryggis- og varnamálum og Ísland verði að huga vel að hlutverki sínu.
Þórdís segist þekkja málaflokka ráðuneytisins vel að hún taki nú stöðumat á þeim.
Spurð um stöðuna á Gasa og þau skilaboð sem ríkisstjórnin hefur sent frá sér segir Þórdís margt hafa gerst síðustu sex mánuði. Það sé alger hryllingur sem eigi sér þar stað og það verði að taka til þess afstöðu. Á sama tíma verði Ísland að ganga í takt við þau ríki sem við göngum vanalega í takt við. Við höfum ekki forsendur til að taka sjálfstæða ákvörðun. Það séu ólík sjónarmið en hún geti tekist á við það.
Styður ákvarðanir Bjarna
Hún segist hafa stutt Bjarna í þeim ákvörðunum sem hann tók í ráðuneytinu, eins og að frysta framlög til UNRWA. Hún muni nálgast verkefnin eins og best sé á kosið. Átökin á Gasa séu með þeim flóknustu og það skipti máli að sameinast um það sem sé rétt að gera. Það sé að standa með alþjóðalögum. Því fylgi ekki bara réttindi heldur líka skyldur. Öll ríki sem vilji láta taka sig alvarlega verði að virða það.
Þórdís Kolbrún segir vegið að þeim gildum sem við trúum á og það sé ljóst hvar línan liggi. Hún muni beita sér í samræmi við það. Á sama tíma þurfi Ísland að finna sína hillu og hvar hægt sé að gera mest gagn. Það eigi ekki að vanmeta smæð okkar.