Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins, en þar segir að samkomulag hafi náðst milli forsætis- og matvælaráðherra og ráðuneytisstjóra í þeim ráðuneytum um flutning hlutaðeigandi ráðuneytisstjóra milli ráðuneyta.
Það eru Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, og Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri í matvælaráðuneytinu, sem skipta um stöður. Bryndís fer því í matvælaráðuneytið og Benedikt í forsætisráðuneytið.
Breytingin mun eiga sér stað í dag, að því sem fram kemur í tilkynningu stjórnarráðsins.
Hrókeringin á sér stað í kjölfar endurnýjunar á ríkisstjórn landsins þar sem þónokkrar breytingar urðu á ráðherraskipan. Bjarni Benediktsson fór úr utanríkisráðuneytinu í forsætisráðuneytið og tók við af Katrínu Jakobsdóttur, sem hefur boðið sig fram til forseta. Bjarkey Olsen fór í matvælaráðuneytið og tók við af Svandísi Svavarsdóttur sem fór í innviðaráðuneytið.
Bryndís Hlöðversdóttir tók við ráðuneytisstjórn í forsætisráðuneytinu í upphafi árs 2020, en Benedikt Árnason var skipaður ráðuneytisstjóri matvælaráðuneytisins, sem þá hét atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, árið 2021.