Sumir litblindir sjá heiminn í svarthvítu. Í flestum tilvikum er ekkert við því að gera, nema kannski að leita á náðir tækninnar. Það gerði þessi maður, framtíðarhugsuðurinn og „cyborg-listamaðurinn“ Neil Harbisson, sem nú er staddur á Íslandi á vegum Orkuveitunnar. Hann er litblindur, allt blasir við honum svarthvítt, en árið 2004 lét hann græða loftnet í höfuðkúpuna á sér og segist nú skynja liti með hljóði.
„Litur er í raun titringur sem flestir sjá með augunum. Í mínu tilfelli fer titringur litanna inn í loftnetið, býr til titring í höfðinu á mér og ég heyri þannig titring litanna,“ segir Neil. Við heyrum og sjáum dæmi um skynjunina í fréttinni hér fyrir neðan.
Þögn í snjónum og hrauninu
Neil segist skynja liti sem mannskepnan greinir yfirleitt ekki, útfjólubláa og innrauða tóna. Inntur eftir uppáhaldslitnum sínum nefnir Neil einmitt þá innrauðu.
„Tíðni þeirra er mjög lág og þannig verð ég þess áskynja ef það er einhvers konar viðvörunarkerfi í búð eða banka. Þetta veitir mér viðbótarupplýsingar.“
Neil hefur öðlast talsverða frægð fyrir óhefðbundna skynjun sína og ferðast víða. Hann segist sérstaklega ánægður með hið íslenska litróf.
„Hvíti snjórinn og svarta hraunið býr til þögn. Ég get því horft á landslagið hér og heyri ekki neitt, sem er gríðaróvenjulegt. Ég nýt þess mjög að beina loftnetinu að landslaginu.“
Andlit í C-dúr
Við fylgdumst með Neil virða fyrir sér útsýnið úr Hörpu; við það ómuðu aðallega C- og F-nótur í höfði hans. Svo sneri hann sér að fréttamanni.
„Andlitið á þér er dæmi um andlit í C-dúr. Hárið á þér er G, augun eru C og varirnar E. Do, mí, so. Þú ert í dúr.“
Segir þetta þér eitthvað um fólk?
„Nei!“ segir Neil og hlær.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2. Fréttatímann í heild má sjá að neðan: