Þegar geimför snúa til jarðar eru þau á gífurlegum hraða og þegar þau mæta andrúmslofti hitna þau mjög mikið. Í þessu tilfelli náði yfirborðshiti Orion í allt að 2.760 gráður. Hitaskjöldum er ætlað að verja geimför og geimfara gegn þessum hita.
Innri endurskoðandi NASA gaf í gærkvöldi út skýrslu um stöðu Artemis-áætlunarinnar en þar segir að hitaskjöldurinn hefði skemmst á rúmlega hundrað stöðum. Þar hefðu hlutar hans fallið af honum en skemmdirnar voru allt annars eðlis en verkfræðingar NASA höfðu búist við.
Óttast er að skemmdirnar bendi til galla á hitaskildinum sem gæti ógnað geimförum sem senda á til tunglsins í geimfarinu á næstu árum. Ekki er vitað af hverju skemmdirnar urðu svo miklar. Það sem sérfræðingar óttast sérstaklega er að brak úr hitaskildinum gæti skemmt fallhlífar geimfarsins.
Boltar sem eru í hitaskildinum eru einnig sagðir hafa bráðnað meira en búist var við.

Geimfarið á að geta hýst geimfara í allt að 21 dag. Í Artemis-2 stendur til að skjóta hópi geimfara til tunglsins, þar sem þeir munu vera á sporbraut um tunglið um skeið. Þetta verður í fyrsta sinn sem geimfarar fara lengra en á sporbraut um jörðu frá árinu 1972, þegar Apollo 17 var skotið til tunglsins.
Orion-geimfarinu var skotið á loft seinni hluta árs 2022. Það ferðaðist til tunglsins og var þar á sporbraut í nokkra daga. Geimfarið fór í heildina um tvær milljónir kílómetra áður en það lenti í Kyrrahafinu.
Geimfarar í nýju geimfari
Á mánudaginn í næstu viku stendur til að skjóta geimförum til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í geimfarinu Starliner. Starfsmenn Boeing hafa unnið að þróun þess geimfars um árabil en sú vinna hefur reynst erfið og er mörgum árum á eftir áætlun.
Árið 2014 gerðu forsvarsmenn Boeing 4,2 milljarða dala samning við Geimvísindastofnun Bandaríkjanna, NASA, um að þróa Starliner til að senda geimfara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Til stóð að skjóta geimfarinu fyrst út í geim árið 2019 en því var ítrekað frestað út það ár.
Þegar Starliner fór fyrst á loft, í desember 2019, misheppnaðist geimskotið vegna þess að innri klukka geimfarsins var ekki í samræmi við innri klukku Atlas V-eldflaugarinnar sem notuð var til að skjóta Starliner á Loft. Því komst geimfarið aldrei á sporbraut.
Tilraun tvö misheppnaðist vegna nokkurra ventla sem festust. Næsta geimskot heppnaðist og var geimfarið sent, ómannað, til geimstöðvarinnar í maí 2022.
Þá stóð til að senda menn til geimstöðvarinnar með Starliner síðasta sumar en því geimskoti var einnig frestað og á loks að verða af geimskotinu þann 6. maí.