Það leynist ýmislegt skemmtilegt í töskunni hjá Magnúsi Jóhanni eins og sjá má hér:

Hvað er í töskunni þinni og segðu okkur aðeins frá því sem er?
Mín taska geymir alltaf fartölvuna mína, hún er heilinn í flestu því sem ég geri, tek upp og geri alla tónlistina mína á henni og því fylgir hún mér á flesta staði.
Það sem er einnig í henni á þessari stundu er JS Sloane geldolla, Fischersund 54 ilmur, sólgleraugu, hleðslutæki og nokkrir aðrir fúnksjonal hlutir á borð við stúdíó- og giggdagbókina mína, nótnaskriftarbók, panodil, „in-ear“ heyrnartól, pennaveski og dagbókin mín.
Svo þegar ég er að fara að spila einhvers staðar þá hýsir taskan mín líka hljóðkort, snúrur, nótnablöð, settlista og fleira í þeim dúr. Svo er ég líka að dunda við að lesa Rick Rubin bókina þannig að hún er líka í töskunni minni þessa dagana.

Hefur einhver hlutur tilfinningalegt gildi?
Dagbókin mín er gömul stílabók sem afi minn úr Vestmannaeyjum átti og merkti fremst. Þykir mjög vænt um hana. Sömuleiðis dýrka ég Filson Tablet töskuna mína.
Ég hef átt hana í mörg ár og ferðast með hana út um allan heim, hefur iðulega verið stútfull og við það að springa en hefur aldrei klikkað.

Er eitthvað sem er alltaf í töskunni þinni?
Fartölvan, gelið og nótnaskriftarbókin fer með mér út í daginn í 96% tilfella.
Hver er þín uppáhalds taska og afhverju?
Um þessar mundir er það Burberry taska sem mér áskotnaðist nýlega. Hún er í geggjuðum lit, með flottum ströppum, frekar látlaus og hönnunin þykir mér tímalaus. Efnið er það sama og í hinum sígildu Burberry frökkum og taskan gengur við flestar mínar múnderingar.

Ertu duglegur að taka til í töskunni þinni og halda röð og reglu?
Ekki beint. Hin trausta Filson taska hefur safnað allskonar rusli í gegnum tíðina. Oftast birtist eitthvað óvænt þegar hún er tæmd annað slagið.
Ertu gjarnan með margar töskur á þér eða margar til skiptanna?
Alla jafna er ég bara með eina tösku út daginn sem inniheldur helstu nauðsynjar, en ég á svakalega gæjalega Filson Duffle tösku í stíl við Filson Tablet töskuna. Stundum nota ég duffle sem sundtösku eða ef ég fer í ferðalag þá þykir mér gaman að hafa þær í stíl.

Stór eða lítil taska og afhverju?
Flestar mínar töskur eru ekkert sérlega tröllvaxnar og duga mér ágætlega. Hinsvegar á ég ferlega stóra tösku undir skvassdótið mitt. Hún er eiginlega óhóflega íturvaxin og eintómt lúkk atriði enda sagði Coco Chanel: „Every day is a fashion show and the world is your runway“

Hér má hlusta á Magnús Jóhann á streymisveitunni Spotify.