Fyrstu fregnir frá Ísrael gefa til kynna að tillagan sé ný, eftir breytingu á fyrri tillögum, og breytingin sé runnin undan rifjum Egypta. Ólíklegt sé að Ísraelar muni samþykkja hana. Enn sem komið er hefur þó lítið verið staðfest varðandi tillöguna og virðist sem Ísraelum hafi ekki verið sagt frá henni áður en leiðtogi Hamas birti yfirlýsinguna um samþykkt hennar.
Times of Israel hefur heimildir fyrir því að tillagan feli í sér fjörutíu daga vopnahlé í skiptum fyrir 33 gísla. Þá verði Ísraelum gert að sleppa hundruðum Palestínumanna úr haldi.
Viðræður eiga svo að halda áfram þegar vopnahléið hefur staðið yfir í sextán daga.
Eftir fjörutíu daga tímabilið eigi Hamas-liðar að sleppa þeim gíslum sem eftir eru í skiptum fyrir fleiri Palestínumenn og 42 daga vopnahlé til viðbótar.
Eftir það tímabil eigi Hamas-liðar að afhenda þau lík sem þeir fluttu til Gasa frá Ísrael þann 7. október og lík gísla sem hafa dáið í haldi þeirra, í skiptum fyrir aðra 42 daga og líka Palestínumanna í haldi Ísraela.
Erfiðar viðræður
Erindrekar frá Katar og Egyptalandi hafa undanfarið reynt að miðla mála milli Ísraela og Hamas, með því markmiði að koma á vopnahléi á Gasaströndinni. Pólitískir leiðtogar Hamas hafa um langt skeið haldið til í Katar.
Ráðamenn í Ísrael tilkynntu fyrr í dag að til stæði að senda herinn til atlögu gegn Hamas í Rafah á suðurhluta Gasastrandarinnar en þangað hafa hundruð þúsunda Palestínumanna flúið á undanförnum mánuðum.
Sjá einnig: Um hundrað þúsund sagt að rýma svæði á Rafah vegna „afmarkaðra aðgerða“
Viðræður síðustu daga sagðar hafa verið erfiðar. Benjamín Netanjahú sagði um helgina að þó Ísraelar samþykktu vopnahlé í skiptum fyrir það að Hamas-liðar slepptu þeim gíslum sem þeir hefðu enn í haldi, kæmi ekki til greina að binda endanlega enda á átökin.