Það var seinni hluta apríl sem lögregla handtók íbúa í Reykholti, karlmann á áttræðisaldri, dóttur hans og tengdason um þrítugt auk bróður tengdasonarins. Þau eru grunuð um að hafa svipt karlmann á sjötugsaldri frá Möltu frelsi sínu og kúgað út úr honum fé. Karlmaðurinn leigði bílskúr af íbúanum í Reykholti.
Jón Gunnar Þórhallsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að ákvörðun hafi verið tekin um að sleppa einum úr haldi í gær. Réttarstaða hans sé þó óbreytt. Hann sé meðal sakborninga eins og hin þrjú. Hann vildi ekki upplýsa hverjum hinna handteknu hefði verið sleppt.
Jón Gunnar segir málið skýrast betur og betur með hverjum deginum enda sé það tilgangur rannsóknarinnar.
Varðhald yfir hinum þremur rennur út á föstudaginn.
Fram kom á Vísi fyrir tíu dögum að íbúum í Reykholti og Laugarási, þar sem karlmaðurinn frá Möltu hefur starfað við garðyrkju í nokkur ár, væri verulega brugðið vegna málsins. Um væri að ræða harðduglegan vænsta mann sem enginn skilji að einhver hafi viljað gera mein.
Veistu meira um málið? Fréttastofa tekur við ábendingum á ritstjorn@visir.is.