Samningurinn felur í sér að dönsk stjórnvöld taki á leigu þrjú hundruð fangelsispláss í Kósovó.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef danska dómsmálaráðuneytisins. Fangelsisplássin eru í Gjilan-fangelsinu í suðausturhluta Kósovó en framundan eru nú framkvæmdir í fangelsinu til að plássin standist danska fangelsisstaðla.
Danski dómsmálaráðherrann Peter Hummelgaard segir að með samningnum sé ætlunin að senda erlendum glæpamönnum skilaboð um að „framtíð þeirra sé ekki í Danmörku“. Þá sé með þessu sömuleiðis verið að losa um pláss í yfirfullum fangelsum í Danmörku.
Reiknað er með að fyrstu fangarnir komu til með að geta hafið afplánun í Gjilan-fangelsinu eftir 21 til 26 mánuði.
Kostnaður danskra stjórnvalda vegna samningsins nemur 1,5 milljörðum danskra króna yfir tíu ára tímabil. Upphæðin nemur um þrjátíu milljarða íslenskra króna.