Spítalinn segir miður að móðir stúlkunnar hafi upplifað að ekki hafi verið hlustað á hana. Móðir barnsins kallaði eftir svörum í fjölmiðlum í gær og gagnrýndi harðlega viðbragðsleysi spítalans.
„Í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum hefur verið fjallað um andlát sjö vikna stúlku sem bar að skömmu eftir útskrift af Barnaspítala Hringsins og óánægju móður stúlkunnar með þjónustu Landspítala. Landspítali vottar móður stúlkunnar og öðrum aðstandendum djúpstæða samúð,“ segir í svari til fréttastofu um málið.
Þar kemur enn fremur fram að forstjóri hafi fundað með móðurinni. Spítalinn segir afar miður að upplifun hennar hafi verið á þann veg að henni hafi liðið eins og ekki væri hlustað á áhyggjur hennar og ábendingar.
„Traust er spítalanum mikilvægt, líkt og á við um alla heilbrigðisþjónustu, og að sjúklingar og aðstandendur finni og treysti því að spítalinn bjóði bestu meðferð sem völ er á hverju sinni,“ segir í svari spítalans.
Nýr talsmaður sjúklinga
Þá segir einnig að afstaða spítalans sé sú að grundvöllur góðar þjónustu sé að starfsfólk leggi fram um að hlusta á sjúklinga. Til að auka getu sína á því sviði hafi verið ráðinn talsmaður sjúklinga sem hefur það verkefni að vinnu úr kvörtunum og ábendingum sjúklinga og aðstandenda.
Auglýst var í stöðuna í aprílmánuði en í auglýsingu kom fram að talsmaður sjúklinga muni „gegna veigamiklu hlutverki í ráðgjöf og stuðningi við sjúklinga en einnig samtali við starfsfólk spítalans um sjúklingamiðaða nálgun við viðfangsefni stofnunarinnar. Áhersla er lögð á sjálfstæði talsmanns sjúklinga og óhæði gagnvart stjórnendum spítalans en virkt og hvetjandi samstarf.“
Greint var frá því fyrr í dag að Marta Jóns Hjördísardóttir hafi verið ráðin í stöðuna. Marta útskrifaðist með BSc gráðu í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 2010, MPM gráðu í verkefnastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík 2017 og er að ljúka við MSc gráðu í hjúkrunarstjórnun við Háskóla Íslands. Hún hefur unnið á spítalanum frá árinu 2007.