„Það er í fyrsta lagi að við kusum þrjár konur í fyrstu þrjú sætin,“ segir Eva Heiða en samanlagt eru þessar konur, Halla Hrund Logadóttir, Katrín Jakobsdóttir og Halla Tómasdóttir, með 75 prósent allra atkvæða.
Eva Heiða segir það einnig merkilegt að í aðdraganda kosninganna hafi það ekki þótt mikið tiltökumál að í þetta stefndi. Sem sé vel.
Annað sem henni þyki athyglisvert sé svo gríðarleg fylgisaukning nýkjörins forseta, Höllu Tómasdóttur, miðað við það fylgi sem henni var spáð í skoðanakönnunum í síðustu viku.
Kjörsókn var 80,8 prósent í ár og hefur ekki verið meiri síðan í forsetakosningunum 1996. Eva Heiða segir alltaf ánægjulegt þegar kjörsókn eykst og telur að það sem geti hafa haft áhrif núna sé hversu mjótt væri á mununum í skoðanakönnunum á milli efstu tveggja eða þriggja.
„Það hvetur fólk til að mæta á kjörstað til að kjósa.“
Greinilegt að fólk kaus taktískt
Hvort skoðanakannanir geti verið skoðanamyndandi segir Eva Heiða að skoðanakannanir hafi ekki beint áhrif á það hvaða viðhorf fólk hafi gagnvart frambjóðendum, heldur gætu skoðanakannanir frekar haft áhrif á það hvað fólk kýs. Það er að segja, að skoðanakannanir kunni að hafa áhrif á hegðun kjósenda.

„Eins og við sjáum að hefur greinilega gerst í þessum kosningum,“ segir Eva Heiða. Mjög margt bendi til þess að fólk hafi kosið taktískt, annað hvort gegn Katrínu eða Höllu Tómasdóttur.