Upphaflega áttu Friðrik konungur og Mary drottning að heimsækja Færeyjar dagana 12. til 14. júní. Á heimasíðu dönsku konungshallarinnar segir nú að heimsókninni hafi verið frestað.
Í frétt DR kemur fram að svo virðist sem að það sé Aksel V. Johannesen, lögmaður Færeyja, sem hafi tekið þá ákvörðun að fresta heimsókninni, en á heimasíðu konungshallarinnar dönsku kemur fram að fullur skilningur sé á stöðunni.
Ekki hefur verið gefin út ný tímasetning fyrir heimsókn Friðriks og Mary til Færeyja.
Verkfallsaðgerðir nokkurra stærstu stéttarfélaga í Færeyjum hafa nú staðið í tvær og hálfa viku og hefur það meðal annars leitt til eldsneytisskorts og tómra hillna í matvöruverslunum. Fjölmiðlar segja enn nokkuð vera í land í samningaviðræðum atvinnurekenda og stéttarfélaga.
Meðal þeirra sem hafa lagt niður störf eru vörubílstjórar, verkamenn, ræstingarfólk og hafnarstarfsmenn. Sömuleiðis hefur þurft að loka skólum og leikskólum þar sem ekki hefur verið hægt að þrífa byggingarnar vegna aðgerða ræstingarfólks.