Þá förum við yfir stöðuna á Gasa, þar sem tala látinna í björgunaraðgerðum Ísraelshers er komin upp í næstum þrjú hundruð, að sögn heilbrigðisráðuneytisins á svæðinu. Fjórum ísraelskum gíslum var bjargað en 274 Palestínumenn eru sagðir hafa fallið og næstum sjö hundruð særst.
Búist er við sambærilegu áhlaupi og því sem átti sér stað í gær, þegar hraunrennsli úr eldgosinu við Sundhnjúka jókst skyndilega. Forstjóri HS orku segir að búið sé að gera allt sem hægt er til að tryggja órofna starfsemi orkuverksins og að atburðir gærdagsins hafi ekki haft nein áhrif.
Við ræðum einnig við alþjóðastjórnmálafræðing um Evrópuþingskosningarnar sem lýkur í dag. Tvísýnt er hvort Ursula von der Leyen nái endurkjöri. Og á Selfossi fagnar Pylsuvagninn tímamótum og býður gestum og gangandi upp á pylsu og kók í tilefni dagsins.