Bergþóra Sól Ásmundsdóttir lék sinn fyrsta leik fyrir Víking í gær og hún kom liðinu yfir á 42. mínútu. Hún fékk þá sendingu frá fyrirliðanum Selmu Dögg Björgvinsdóttur og kláraði færið vel.
Skömmu áður bjargaði Birta Guðlaugsdóttir, markvörður Víkings, sínum konum frá því að lenda undir. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir átti þá skot að marki gestanna en Birta varði boltann glæsilega í slána.
Þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Linda Líf Boama annað mark Víkings eftir frábært einstaklingsframtak.
Mörkin og markvörslu Birtu má sjá hér fyrir ofan.
Þór/KA, sem hefur tapað þremur heimaleikjum í röð, er í 3. sæti deildarinnar, fimm stigum á undan Víkingi.