Það voru Bragi Guðmunds og Agnes Ýr sem sáu um Bylgjulestina og voru þau í beinni útsendingu milli klukkan 12 til 16 þar sem þau tóku púlsinn á þessum stærsta matarviðburði á Íslandi.

Ljósmyndarinn Hulda Margrét var á staðnum og tók fjölda skemmtilegra mynda af lífsglöðum hátíðargestum.

„Robbi, sem sér um allt utanumhald hátíðarinnar kíkti í Bylgjubílinn og lofaði góðri skemmtun og framúrskarandi matarupplifun sem stóðst allt saman,“ segir Bragi. „Auk þess lék veðrið við gesti sem lögðu leið sína í garðinn.“
Í tengslum við hátíðina var svo keppni um besta götubitann og kíkti Adam í heimsókn í Bylgjubílinn en hann var einn dómaranna sem völdu að lokum sigurvegarann sem krýndur var á sunnudeginum.
Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands, sagði hlustendum frá spennandi Íslandsmóti í golfi sem haldið var á Hólmsvelli í Leiru um helgina auk þess sem hún ræddi gríðarlegan áhuga og uppgang íþróttarinnar hérlendis.

Undir lokin kíktu Laddi og Magni í heimsókn með glænýtt lag Ladda og Hljómsveitar mannanna sem þeir tóku með stæl.
Frábær dagur í Hljómskálagarðinum á laugardaginn. Um næstu helgi, laugardaginn 27. júlí, verður Bylgjulestin í Hjarta Hafnarfjarðar það verður síðasti viðkomustaður Bylgjulestarinnar þetta sumarið.