Talsverð umferð var um báðar Fjallabaksleiðirnar, en þangað hafði umferð vel búinn bíla verið beint til að komast fyrir vegalokun vegna jökulhlaupsins úr Mýrdalsjökli.
Töluvert var í ánni vegna úrkomu og vatnavaxta. Draga þurfti nokkra bíla úr Hólmsá en þrjá bíla þurfti að skilja eftir og var ferðafólkinu komið til byggða. Öðrum á vanbúnum bílum var snúið við. Liðsmenn fjögurra björgunarsveita, Víkverja, Stjörnunnar, Kyndils og Lífgjafar í Álftaveri komu að verkefninu, en þeir höfðu verið að störfum á svæðinu í allan gærdag vegna jökulhlaupsins.
Einn bílanna sem þurfti að skilja eftir var rafbíll sem var óökuhæfur, að því er kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
Þá lentu ferðamenn í vanda í Krossá í Þórsmörk um miðnætti í nótt. Skálaverðir í Langadal komu þeim til bjargar, en þeir eru jafnframt liðsmenn björgunarsveita og þurfti því ekki að kalla eftir frekari aðstoð.
Mikil úrkoma hefur verið á sunnanverðu landinu og varaði Veðurstofan við vatnavöxtum í ám á Suðurlandi, Suðausturlandi og miðhálendinu. Vatnsmagn jókst í ám á svæðinu í nótt samkvæmt mælitækjum og gæti haldið áfram í dag á þeim svæðum sem Veðurstofan telur ástæðu til að fylgjast með.