Rimaskóli er grunnskóli fyrir börn á aldrinum sex til sextán ára í samnefndu hverfi í Grafarvogi í Reykjavík. Fram undan eru töluverðar viðgerðir og tiltekt eftir atburði næturinnar. Þóranna Rósa Ólafsdóttir, skólastjóri Rimaskóla, fór á vinnustaðinn sinn í nótt og hitti fyrir fulltrúa frá lögreglu og Öryggismiðstöðinni.

„Þetta er ömurlegt. Þarna var allt í rúst,“ segir Þóranna. Nýlega hafi verið skipt um rúður í skólanum og klæðningu sömuleiðis. Hún lýsir því að einhverjir hafi brotið sér leið inn í skólann með því að brjóta rúðu nærri smíðastofu skólans. Stofan hafi verið lögð í rúst og allar rúður sem hægt var að brjóta brotnar.
Erfitt sé að átta sig á því hvort verkfærum úr smíðastofunni hafi verið stolið.
„Það er hætta á því að það séu tekin verkfæri og notuð sem vopn,“ segir Þóranna. Hún ætlar aftur í skólann eftir hádegið og kanna þau mál betur. Raunar eigi hún að einhverju leyti erfitt með að átta sig á umfangi skemmdanna, svo sem hve margar rúður séu brotnar þó margar séu, því hún sé í áfalli sem hafi blandast saman við mikla þreytu á vettvangi í nótt.
Þóranna segir að einhver hafi farið inn í smíðastofuna fyrir tveimur vikum án ummerkja. Þá hafi verið krotað á vegg að einhver hafi farið inn í smíðastofuna.

„Okkur grunar að þetta sé einhver nemandi,“ segir Þóranna. Raunar fleiri en einn. Vitni hafi hringt í lögreglu í nótt og sést hafi til nokkurra einstaklinga hlaupa af vettvangi. Hún biðlar til foreldra að taka stöðuna á börnum sínum.
„Það er lausung á börnum. Það þarf að hafa ýmislegt í huga. Er barnið þitt heima hjá sér um nóttina? Ef það vaknar ekki um morguninn... er það undir áhrifum einhverra efna? Er barnið þitt með málningu á sér? Er barnið þitt á góðum stað?“
Þetta eru spurningar sem foreldrar ættu að spyrja sig að. Sömuleiðis hvort einhverjir hafi verið að gista einhvers staðar.
„Stundum endar svoleiðis með svona vitleysu.“
Þórunn lýsir líðan sinni sem áfalli og líklega gildir það um fleiri. Hún segir skólann vinnusvæði kennara, sem mæti bráðum til starfa, og auðvitað nemendanna. Þá sé starfsemi í skólanum yfir sumarið þar sem bæði Vinnuskóli Reykjavíkur sé með starfsemi og frístundarheimili sé haldið úti.