„Já, við höfum tekið eftir því að umferðin er farin að þyngjast. Meira vestur eftir en austur eftir,“ segir Hildur Kristín Þorvarðardóttir varðstjóri umferðardeildar.
Hún telur veðurspá eflaust hafa sitt að segja um það. Gul viðvörun er á Suður- og Suðvesturlandi á morgun.
Hildur hvetur ökumenn til að fara varlega og vera með þolinmæðina að vopni. Viðbúið sé að hægist á umferð þegar svo margir leggi land undir fót. Allir komist á áfangastað á endanum.
Þá segir hún umferðareftirlit verða með hefðbundnum hætti á Vesturlands- og Suðurlandsvegi eins og fyrri verslunarmannahelgar.