Dagur segir í samtali við fréttastofu að það hafi ekki verið eins mikil hætta á ferð og myndbandið gefur til kynna. Allir sjálfboðaliðarnir hafi verið meðvitaðir um að brennan myndi hrynja í dalinn en að hún hafi gert það aðeins fyrr en gert hafði verið ráð fyrir.
Dagur segist þó hafa séð brettið sem þaut í áttina að honum í tæka tíð og þess vegna hafi honum tekist að koma sér undan því með kollhnís.
Hann segir alla sem komu að brennunni búa yfir margra ára reynslu og að vel sé valið í hópinn.
„Þetta fór allt vel og allir eru heilir,“ segir Dagur.
Ástæðuna fyrir því að jafnmjóu hafi munað og myndbandið ber vitni um segir Dagur vera þá að ekki hafi tekist að bera eld að aftari hluta brennunnar. Vindurinn hafi verið það mikill og vindáttin það óhagstæð að fremsti hlutinn hafi einn logað. Því hrundi brennan ofan í dalinn með tilheyrandi látum og fljúgandi spýtnabraki.
Dagur ítrekar að þó að myndbandið sé frekar óhugnanlegt hafi enginn verið í hættu og að allir sluppu óskaddaðir.
„Gleðilega þjóðhátíð!“ segir hann að lokum.