Maðurinn réðst á ráðherrann á Kolatorginu í miðborg Kaupmannahafnar þann sjöunda júní síðastliðinn. Hann kýldi hana fast í hægri upphandlegg með þeim afleiðingum að hún missti jafnvægið og féll. Hún fékk vægan hálshnykk og var flutt á Rigshospitalet til skoðunar.
Maðurinn var undir miklum áhrifum áfengis og angaði að brennivíni þegar lögreglan handtók hann, að hennar sögn. Hann hafi einnig verið svo sljór að þurfti að aðstoða hann við að komast inn í lögreglubílinn. Fyrir dómi kvaðst hann ekki muna mikið eftir árásinni. Hann hefur áður hlotið dóma fyrir innbrot og líkamsárásir.
Ríkisútvarp Danmerkur greinir frá því að honum verði einnig vísað brott frá Danmörku í minnst sex ár. Honum verður einnig gert að greiða málskostnað ásamt miskabótum sem nema 25 þúsund krónum íslenskum. Hinn dæmdi kveðst ekki munu áfrýja dómnum.
Maðurinn var einnig dæmdur í nokkrum liðum fyrir blygðunarsemisbrot og að hafa stolið tómum flöskum úr verslunum.