„Í minningu sonardóttur minnar sem lést af þessum fíknisjúkdómi fyrir fjórum árum, 26 ára gömul. Gullfalleg, vel gefin, klár stelpa sem féll fyrir þessu. Ég er að hlaupa í minningu hennar,“ segir Sigurður sem mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun til að ræða hlaup sitt ásamt Stefáni Pálssyni markaðsstjóra SÁÁ. Sjálfur hefur hann starfað lengi fyrir SÁÁ.
„Ég er búinn að vinna við þetta í yfir fjörutíu ár, meðferð við þessum fíknisjúkdómi og annað. Maður er búinn að sjá ýmislegt og maður áttar sig alveg á því að þessi sjúkdómur er hættulegur. Hann er banvænn, oft illviðráðanlegur og óútreiknanlegur. Það er svo margt sem spilar inn í sem verður þess valdandi að fólk lætur lífið í þessum sjúkdómi eins og öðrum erfiðum krónískum sjúkdómum.“
Þekkir baráttuna af eigin raun
Sigurður hyggst hlaupa í bol með mynd af sonardóttur sinni og tölunni 46. Hann segir léttur í bragði að Stefán hafi troðið þeirri tölu á bolinn, talan merki hans eigin baráttu.
„Ég fór í meðferð, þannig ég hef eignast 46 ár án þess að nota áfengi og önnur vímuefni og er þakklátur fyrir það. Hóf svo störf hjá SÁÁ mjög fljótlega þegar það rann af mér, fór að vinna og vann hjá þeim í yfir fjörutíu ár.“
Sigurður segist hafa hlaupið í yfir þrjátíu ár. Hann á að baki 53 maraþon, fjögur 100 kílómetra hlaup og þar af eitt heimsmeistarakeppnishlaup í Frakklandi. Þá hafi hann og félagar hans búið til hlaup, Þingstaðahlaupið og Þingvallavatnshlaupið svo eitthvað sé nefnt.
„Ég hef fyrir því að hlaupa hálft maraþon í dag, því maður er ekki að hlaupa eins mikið og maður gerði. Maður var svo rogginn á tímabili að maður reimaði ekki skóna sína fyrir minna en tuttugu kílómetra,“ segir Sigurður hlæjandi.
Hann hvetur fólk til að láta á hlaupin reyna. Reima á sig skóna og vera vel vökvaðir. Gefast ekki upp og setja sér markmið, hlaupa til dæmis tíu ljósastaura. „Í hlaupum þarf að bíða eftir verðlaununum, þau koma ekki alltaf strax. Fyrst þarftu að hafa fyrir þessu, verður móður, færð blóðbragð í munninn. Þetta gengur yfir, líkaminn þarf tíma til að sjá að þú ætlir að gera einhverja alvöru úr þessu.“