Gummi Emil virðist vera út um allt þessa dagana, er öflugur á Instagram og Tik-Tok og boðar heilsusamlegan lífsstíl þó einhverjir gætu verið því ósammála. Þegar Sindra bar að garði var Gummi ný kominn aftur heim úr fjallgöngu. Hann gerði sér lítið fyrir og fór á Esjuna í morgunsárið, líkt og raunar marga aðra daga.
Ekki á sterum í tíu mánuði
Gummi er alltaf ber að ofan en segist engar áhyggjur hafa af því að fá lungnabólgu. Þá ræðir hann líka steranotkun sína við Sindra og segist ekki hafa notað slíkt undanfarna tíu mánuði.
„Ég er ekki á sterum núna. Ég hef verið á sterum en er búinn að taka pásu í tíu mánuði cirka. Sem er mjög góður tími, langur tími,“ segir Gummi.
„Ég er líka bara fæddur með góð gen og þetta lúkk,“ segir Gummi sem er jafnframt 1,75 á hæð. Sama hæð og Mike Tyson líkt og Gummi kemur inn á í morgunkaffinu með Sindra.
Á ekki kærustu
Þá spurði Sindra Gumma út í ástarmál hans. Gummi er 26 ára og er einhleypur. Ástæðan er sú að sögn Gumma að hann hefur verið á miklu ferðalagi að kynnast sjálfum sér.
„En aftur á móti þá skaparðu sjálfan þig líka. Síðan er einhver grunnur hver þú ert, en það er kannski ekkert mikið sniðugt fyrir mig að festa mig þangað til ég er 28, 29, 30. Samkvæmt stjörnuspá sko og kannski líka bara samkvæmt því hvaða tímapunkti ég er á í lífinu núna.“
Gummi segir að það sem drífi hann áfram sé hreyfingin og það sem hún geri fyrir andlega heilsu hans. Hann verði að fá útrás og öskra. 95 prósent fólks hafi aldrei öskrað. „Veistu hvað það er gott?“ spyr Gummi áður en hann öskrar hressilega fyrir Sindra.