Erna Sóley Gunnarsdóttir tekur þátt í lokahátíðinni fyrir Íslands hönd og verður fánaberi.
Erna er nýliði á Ólympíuleikunum en hún endaði í 20. sæti í kúluvarpi. Hún kastaði lengst 17,39 metra í öðru kasti sínu.
Guðlaug Edda Hannesdóttir og Hákon Þór Svavarsson voru fánaberar á setningarhátíð Ólympíuleikanna 26. júlí. Auk þeirra og Ernu kepptu Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir í sundi á leikunum.
Á lokahátíðinni í kvöld verður Stade de France breytt í risastóran tónleikasal. Mikið verður um dýrðir á lokahátíðinni en þar fá skipuleggjendur leikanna í Los Angeles eftir fjögur ár meðal annars Ólympíufánann.