Manúela Ósk var stödd í dómaraviðtölum þegar blaðamaður náði tali af henni og segir hún það vera hvað mest krefjandi hluti ferlisins.
„Ég er með svo mikla negludómnefn sem velur án efa frábæran sigurvegara,“ segir Manúel Ósk en í dómnefnd eru Friðrik Ómar Hjörleifsson, tónlistarmaður, Arna Ýr Jónsdóttir, fegurðardrottning og hjúkrunarfræðinemi, Guðmundur „Gummi Kíró“ Birkir Pálmason, kírópraktor og áhrifavaldur, Gerður Huld Arinbjarnardóttir, viðskiptakona og eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush og Kolbrún Pálína Helgadóttir, athafnakona.
25 stúlkur keppast um titilinn Ungfrú Ísland á morgun og verður keppnin í beinu streymi á Vísi og Stöð 2 Vísi.
„Þetta er í níunda skipti sem ég held keppnina og mér finnst okkur alltaf takast betur og betur til. Ferlið í ár það flottasta hingað til. Ég lofa glæsilegu „showi“ í kvöld, stelpurnar eru spenntar að komast á sviðið og skína skært fyrir áhorfendur.“
Undirbúningur hefur verið í fullum gangi síðastliðna mánuði og hefur Manúela Ósk haft nóg fyrir stafni.
„Þessi dagar eru hápunkturinn á mínu ári. Það er svo geggjuð orka í loftinu, svo mikill kærleikur, vinátta og samstaða kvenna en saman geta konur sigrað heiminn,“ segir Manúela Ósk að lokum.