Rússar sökuðu Úkraínumenn fyrr í dag um að hafa látið sprengju falla á vef nærri orkuverinu. Orkuverið er eins og er undir stjórn Rússa en það var hertekið stuttu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar 2022. Allt frá þeim tíma hafa Rússar og Úkraínumenn skipst á því að saka hvern annan um árásir við orkuverið. Fjallað er um málið á vef Guardian.
Sérfræðingum hjá Alþjóðakjarnorkumálstofnuninni var tilkynnt um sprenginguna í dag og fóru samstundis á vettvang til að kanna aðstæður. Í yfirlýsingu frá stofnuninni kemur fram að töluverðar skemmdir væru á orkuverinu og að enn og aftur væri hættan að aukast við kjarnorkuverið vegna átakanna. Átökin hefðu verið meiri síðustu vikur við kjarnorkuverið og að þau væru nær en áður.
Haft er eftir Rafael Grossi, forstjóra stofnunarinnar, í yfirlýsingunni að hann hafi verulegar áhyggjur og er ítrekað ákall hans, til beggja aðila, um að láta af árásum við kjarnorkuverið. Stofnunin hefur allt frá innrás Rússa í Úkraínu hvatt til hófs við kjarnorkuverið og varað við kjarnorkuslysi.
Síðustu helgi kviknaði eldur í kæliturni í kjarnorkuverinu en sérfræðingar stofnunarinnar hafa óskað eftir aðgangi að turninum til að kanna hann. Sérfræðingarnir hafa aðeins fengið að skoða grunn turnsins.