Í Ofurbikarnum svokallaða í þýska handboltanum mætast deildar- og bikarmeistararnir frá síðustu leiktíð. Þar sem Magdeburg varð þá tvöfaldur meistari mættu þeir í dag liði Fusche Berlin sem varð í 2. sæti deildakeppninnar.
Leikurinn í dag var jafn og spennandi og voru þeir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson á sínum stað í liði Magdeburg. Lið Fusche byrjaði aðeins betur og komst tveimur mörkum yfir í stöðunni 6-4 en meistarar Magdeburg skoruðu þá fimm af næstu sex mörkum og komust í 9-7.
Liðin héldu áfram að skiptast á forystunni og í hálfleik var staðan 17-17, allt hnífjafnt.
Sama var uppi á teningunum í síðari hálfleik. Þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum var staðan 26-26 og leikurinn áfram í járnum. Magdeburg komst í 28-26 og leiddi með tveimur mörkum þegar fimm mínútur voru eftir. Í stöðunni 29-27 skoraði Fusche Berlin hins vegar fjögur mörk í röð og náði tveggja marka forystu. Þann mun náði lið Magdeburg ekki að brúa og Fusche Berlin fagnaði 31-30 sigri.
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í liði Magdeburg með níu mörk en sex þeirra komu af vítalínunni. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk en Svíinn Jerry Tollbring var markahæstur hjá Berlínarrefunum með níu mörk.