Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir úr samsetningarverksmiðju Airbus í Hamborg. Þar er búið að mála merki Icelandair á fyrstu þotuna, sem er af gerðinni A321neo.

„Hún er í málningu núna og klárum það á mánudaginn. Næsta verk er að koma undir hana hreyfla og klára farþegarýmið. Svo verður hún í raun bara tilbúin í flugprófanir hjá Airbus,“ segir Bjarni Jónsson, verkefnisstjóri hjá Icelandair, sem stýrir innleiðingu Airbus-vélanna hjá flugfélaginu.

Flugáhugamenn í Aðdáendaklúbbi Loftleiða fengu í dag kynningu frá Bjarna í Café Atlanta í Kópavogi á helstu tækniatriðum flugvélarinnar.
Ennfremur því verkefni að taka hana í þjónustu félagsins, sem felst meðal annars í þjálfun starfsfólks og áhafna, þar á meðal flugvirkja, flugfreyja og flugmanna.
„Þannig að við verðum með mannskap kláran,“ segir Bjarni.

187 farþegasæti verða um borð, álíka og í gömlu 757-þotunum, sem þær leysa af hólmi.
Von er á þeirri fyrstu í nóvember og það er ekki bara ein á leiðinni heldur fjórar. Tvær koma fyrir áramót og aðrar tvær eftir áramót og verða allar komnar í rekstur fyrir næsta sumar.

Icelandair leigir þessar þotur þar til félagið fær nýjustu og langdrægustu tegundina af A321-línunni, XLR-gerðina, eftir fimm ár. Bjarni segir eftirvæntingu meðal starfsfólks Icelandair að fá Airbus.
„Það sést kannski bara best á því að mikið af flugmönnum vildu skipta. Þannig að þetta er eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Bjarni.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: