Ragnhildur hafði tvisvar áður tekið þátt í Bakgarðshlaupi Náttúruhlaupa fyrir hlaupið í gær og farið átta og fimmtán hringi. Í fyrra hafi hún verið svekkt að komast ekki lengra en fimmtán hringi af því það hætta svo margir eftir hundrað kílómetra.
„Eftir bara tvo til þrjá hringi í viðbót er maður kominn miklu ofar. Strax eftir hlaupið í fyrra ákvað ég að fara næst sextán til átján hringi og jafnvel lengra,“ sagði Ragnhildur í samtali við fréttastofu.
Stöðugur sprengur og miklir verkir
Allt leit vel út í upphafi dags í gær, hún var ekki með neina verki og gekk vel að næra sig. „Svo byrjaði þetta vesen um hádegið og var alveg svakalega vont,“ segir hún.
Þú vissir strax að þetta væri blöðrubólga?
„Ég vissi það alveg strax.“
Ragnhildur hljóp með vinkonu sinni Ásdísi Björgu Pálmadóttur og sagði henni strax að hún væri að drepast. Í kjölfarið hafi verið farið í að redda henni bæði sýklalyfjum og íbúfen. „Svo leið þetta og versnaði bara og versnaði,“ segir hún.
En það eru ekki bara verkir heldur er maður í stöðugum spreng er það ekki?
„Það er alltaf eins og þú hafir ekki pissað í fimm tíma,“ segir Ragnhildur og bætir við „Eftir klukkan 19 fóru allar pásurnar í að díla við þetta og ég hafði ekki tíma til að borða eða drekka.“
„Ég bara geri þetta næst“
„Ég ætlaði lengra en 100 og líkamlega hefði ég getað það, ef ekki hefði verið fyrir blöðrubólguna. Ég var orðin það verkjuð að ég þurfti að anda inn og út í hverju skrefi og sýklalyfin virkuðu ekki, örugglega af því ég var ekki í hvíld.“
„Ég hringdi í manninn minn og sagði: ,Þú mátt ganga frá‘.
Hann sagði: ‚Nei nei, ætlarðu ekki að halda áfram, þú varst búin að ákveða að fara lengra‘.
Þá sagði ég: ‚Hundrað kílómetrar að drepast úr sýkingu er bara fínt. Ég bara geri þetta næst‘,“ segir Ragnhildur og bætir við „Svo er ég voðalega svekkt í dag.“
Eftir hlaupið kom maður að máli við Ragnhildi og hvatt hana til að taka átján hringi næst. Hún hafi samþykkt það boð þó móðir hennar hafi bannað henni að fara aftur.