Hvíta-Rússland og Rússland eru í banni frá Ólympíuleikunum vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem Hvít-Rússar hafa stutt frá byrjun. Íþróttafólk þjóðanna gat þó keppt í París í sumar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Gullverðlaun en enginn þjóðsöngur
Íþróttafólkið keppti undir hlutlausum fána og varð að passa að vísa ekki í fána þjóðar sinnar, þjóðsöng eða annað einkennandi fyrir þjóðina. Þær reglur eiga að gilda í aðdraganda, á og eftir Ólympíuleikana og er sérstaklega tekið fram að þátttaka í þjóðhátíðum af hvaða tagi sem er sé bönnuð. Brot geti valdið banni eða ógildingu.
Alls unnu fjórir hvít-rússneskir íþróttamenn til verðlauna á Ólympíuleikunum, af þeim sautján Hvít-Rússum sem tóku þátt. Fimleikamaðurinn Ivan Litvinovich varði ólympíumeistaratitil sinn í stökki og hlaut hann æðstu viðurkenningu Hvít-Rússa; „Föðurlandsorðuna“.
Viyaleta Bardzilouskaya fékk silfur í stökki, Yauheni Zalaty silfur í róðri og Yauheni Tsikhantsou brons í lyftingum. Þeir fengu einnig viðurkenningu og sagði Zalaty við Lukashenko: „Við náðum þessum árangri vegna þín,“ samkvæmt frétt Deutsche Welle.
Telur reglur IOC algjörlega vanvirtar
Lukashenko var yfirlýsingaglaður þegar hann veitti viðurkenningarnar: „Sumarólympíuleikarnir urðu nýr, mikilvægur kafli í íþróttasögu okkar þjóðar. Það var reynt að ýta okkur til hliðar, og svipta okkur fánanum og þjóðsöngnum, en heimurinn talaði samt um Hvít-Rússa og dáðist að afrekum þeirra með okkur.“
Matviy Bidnyi, íþróttamálaráðherra Úkraínu, hvetur alþjóða ólympíusambandið, IOC, til að bregðast við hátterni Hvít-Rússanna.
„Við búumst við tafarlausum aðgerðum IOC. Þátttaka íþróttafólksins í hátíð sem stangast algjörlega á við forsendur hlutleysis, sýnir algjört virðingarleysi fyrir kröfum IOC. Úkraína fer fram á hertar refsingar gegn rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki,“ segir Bidnyi sem telur hvít-rússnesk stjórnvöld nýta íþróttafólkið í pólitískum tilgangi.