Vísir greindi frá því fyrr í dag að Ólöf Skaftadóttir hefði í hlaðvarpi sínu og Kristínar Gunnars hönnuðar greint frá því að Marta hafi stundað það að skipta um nafn á merktum stólum og setjast sjálf í sætið sem ætlað var Hildi Björnsdóttur. Marta vísaði þessu alfarið á bug í samtali við Vísi.
Þetta á að hafa viðgengist á síðasta kjörtímabili. Hins vegar er það svo að ýmsir kannast vel við þessa frásögn og reyndar urðu vitni af þessu. Katrín Atladóttir fyrrverandi borgarfulltrúi segist staðfesta allt sem sagt er í hlaðvarpinu í færslu á X.
https://t.co/g8srQYLu5J
— Katrín Atladóttir (@katrinat) September 25, 2024
Staðfesti allt sem er hér sagt um mína fyrrum kollega
Og Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vg, segist vitni í málinu þegar Vísir leitaði til hennar varðandi þetta sérkennilega mál.
„Ég sá þetta bæði og heyrði sagt frá þessu. Og þetta er sönn saga, Marta sat í sætinu hennar Hildar einhverja tvo til þrjá fundi. en það var svo leiðrétt.“

Líf hlær við því hún segir að þetta hafi verið skrítið að upplifa og fylgjast með. En hún muni þetta glögglega þó langt sé um liðið en þetta var á síðasta kjörtímabili. Marta settist í tvö eða þrjú skipti við hlið Eyþórs Laxdal Arnalds sem þá var oddiviti Sjálfstæðismanna.
„Það er ákveðið prótókol sem þarf að fylgja en þetta er alveg satt. Starfsfólkið þurfti að ganga í málið því það er ákveðin skipan í salnum,“ segir Líf.