„Það er ekkert eins og að standa á toppnum á Tindfjöllum,“ segir Garpur meðal annars í þættinum. „Hér sjáum við nánast allt Ísland. Frá Heklu, yfir Langjökul, Hofsjökul, Fjallabak, Mýrdal, Eyjafjallajökul, Vatnajökul, Kerlingarfjöll. Við erum með allt hérna. Og okkur. Allt sem skiptir máli í lífinu,“ segir Garpur í þættinum þar sem hann ferðast með Sigga Karlssyni, Eddu Sól Ólafsdóttur Arnholtz og Jóhönnu Maríu Steinþórsdóttir Arnholtz.
Horfa má á fleiri þætti í seríunni á sjónvarpsvef Vísis. Þættirnir eru einnig aðgengilegir á Stöð 2+.
Gleymdu ekki Ýmu í þetta skiptið
Garpur útskýrir meðal annars í þættinum að Tindfjöll séu ferlega þægileg í göngu. Um sé að ræða fjórtán, fimmtán kílómetra leið fram og til baka með sirka sjö hundruð kílómetra hækkun. Að mestu þægileg og aflíðandi hækkun. Á toppi Ýmis er margt að sjá, en hann er tveim metrum hærri en eiginkonan Ýma.
„Hér sjáum við nánast allt Ísland. Frá Heklu, yfir Langjökul, Hofsjökul, Fjallabak, Mýrdal, Eyjafjallajökul, Vatnajökul, Kerlingarfjöll. Við erum með allt hérna. Og okkur. Allt sem skiptir máli í lífinu. Þannig að núna gönnum við á næsta topp.“
Garpur útskýrir að Ýma sé kona Ýmis. Þau hafi verið hjón í þúsundir ára. Hann segist aldrei hafa farið upp á Ýmu fyrr en í þetta skiptið. „Fólk fer yfirleitt bara upp á Ými og svo niður. Nú ætla ég að vera hér og segja ykkur: Farið upp á Ýmu. Ýma er geggjuð.“
Garpur útskýrir að það sé töluvert meiri toppatilfinning sem fylgi Ýmu. „Það er sturlað að standa þar upp á, maður er með sama útsýnið í raun og veru en maður fær aðeins meiri toppafíling, sem er rosa gaman. Það er mjög auðvelt að mæla með því að taka bæði hjónin fyrst þú ert að standa í þessu á annað borð en að standa þarna uppi er klárlega besta útsýni sem ég hef fengið á Íslandi.“
Hér fyrir neðan má horfa á eldri þætti af Okkar eigið Ísland á sjónvarpsvef Vísis. Þeir eru einnig aðgengilegir á Stöð 2+.