Frá þessu er greint í tilkynningu á heimasíðu Eflingar.
„Við í samninganefnd erum gríðarlega stolt af þeim árangri sem náðist í þessum kjaraviðræðum. Við erum enn fremur mjög stolt af því að hafa í fyrsta skipti skipulagt kjaraviðræður þessa hóps með okkar opnu og lýðræðislegu aðferðum. Í enn eitt skiptið sjáum við að það er leiðin til árangurs í kjarabaráttu verkafólks,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar.
Í tilkynningunni segir að meginkrafa samninganefndar Eflingar hafi verið að tekið yrði á mönnunarvanda hjúkrunarheimilanna en nýundirrituðum samningi fylgir samkomulag við stjórnvöld sem tekur á mönnunarvandanum.

„Samkvæmt þessu samkomulagi skulu fjármagnaðar og tímasettar lausnir á manneklu hjúkrunarheimilanna liggja fyrir af hálfu heilbrigðis- og fjármálaráðuneytanna eigi síðar en 1. apríl 2025.
Takist það ekki er Eflingu heimilt að segja upp samningnum með eins mánaðar fyrirvara þann 1. maí 2025,“ segir í tilkynningunni.
Samningurinn gildir fyrir á þriðja þúsund félagsmanna Eflingar en meðal annarra atriða í kröfugerð Eflingar sem náðust í gegn voru nýtt starfsheiti, hópstjóri, til að koma til móts við vaxandi ábyrgð í krefjandi og sérhæfðum störfum og þá er starfsmönnum í 80 prósent starfshlutfalli tryggður forgangur á átta klukkustunda vaktir.
„Varðandi launalið fylgir samningurinn þeirri launastefnu sem Efling ásamt félögum í Breiðfylkingunni mótaði á almennum vinnumarkaði.“
Atkvæðagreiðslu um samninginn skal lokið 16. október næstkomandi.