Svörtu sandar er magnþrungin glæpasería úr smiðju Baldvins Z. Fyrsti þátturinn verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 næstkomandi sunnudagskvöld.
Um er að ræða beint framhald af fyrri þáttaröð. Þráðurinn verður tekinn upp fimmtán mánuðum eftir atburðina á Svörtu söndum sem þjóðin fylgdist æsispennt með.
Í fyrstu seríu var fjallað um dularfullt dauðsfall ferðamanns á Íslandi. Þegar unga lögreglukonan Aníta byrjar að rannsaka málið flækist hún inn í mun stærra mál sem teygir anga sína mörg ár aftur í tímann. Þáttaröðin var framleidd af Glassriver og sýnd á Stöð 2 og er hið sama uppi á teningnum nú.
Eitt heildstætt verk
Leikstjórinn Baldvin Z sagði í samtali við Vísi á dögunum að mörgum spurningums sé enn ósvarað í söguþræði þáttanna. Hann segir að Svörtu sandar 1 og 2 séu eitt heildstætt verk.
„Fyrir þá sem horfðu á seríu eitt, þá er mörgum spurningum enn ósvarað sem eru í raun og veru að fara vera viðfangsefni seríu tvö. Þau sem þekkja seríu eitt þau vita nákvæmlega hvað ég er að tala um.“
Í hópi leikara eru Aldís Amah Hamilton, Ævar Þór Benediktsson, Lára Jóhanna Jónsdóttir, Aron Már Ólafsson og Pálmi Gestsson.
Hulda Margrét ljósmyndari mætti á svæðið og myndaði gleðskapinn.








































Hægt er að horfa á fyrstu seríu af Svörtu söndum á streymisveitu Stöð 2+.