Þetta segir Dr. Anna Nusslock, 36 ára, sem var neitað um þjónustu þegar hún mætti á bráðadeild Providence St. Joseph-sjúkrahúsinu í Eureka í Kaliforníu. Kaliforníuríki hefur höfðað mál á hendur sjúkrahúskeðjunni.
Nusslock var ólétt af tvíburum og komin fimmtán vikur á leið þegar fæðing fór skyndilega af stað. Læknar á sjúkrahúsinu sögðu að annar tvíburinn myndi örugglega deyja og hinn sennilega líka og að ef endir yrði ekki bundin á meðgönguna þá og þegar gæti hún fengið blæðingu, sýkingu og mögulega orðið ófrjó.
Þeir neituðu hins vegar að framkvæma aðgerð á Nusslock, það er að segja framkvæma þungunarrof, þar sem þeir námu enn hjartslátt fóstranna. Læknir sagði sjúkrahúsið, sem stofnað var af nunnum og byggir á kaþólskum gildum, ekki heimila þungunarrof nema líf konunnar væri í augljósri hættu.
Máttu ekki neita um þjónustu á grundvelli trúar
Eftir þref voru Nusslock og eiginmaður hennar send leiðar sinnar með fötu og handklæði. Óku þau í um 20 mínútur á annað sjúkrahús, þar sem Nusslock reyndist með mikla blæðingu og sýkingu í leginu.
Læknar á nýja sjúkrahúsinu sögðust hafa reynslu af því að taka á móti sjúklingum í svipuðu ástandi, sem var neitað um þjónustu af heilbrigðisstarfsmönnum Providence.
Ríkissaksóknari Kaliforníu hefur, eins og fyrr segir, gefið út ákærur á hendur fyrirtækinu sem rekur Providence St. Joseph, og segir starfsmenn þess hafa brotið gegn lögum í ríkinu sem skylda bráðamóttökur til að veita þjónustu, bæði þegar líf eru í hættu en einnig þegar um er að ræða alvarleg veikindi eða slys.
Yfirvöld segja það hvorki samræmast lögum né fordæmum að neita einstaklingum um bráðaþjónustu með tilvísun í undanþágur á grundvelli trúarbragða, eins og virðist hafa verið gert í þessu tilviki.
Þungunarrofslöggjöfin er óvíða jafn frjálslynd og í Kaliforníu en saksóknarinn Rob Bonta segir mál Nusslock sýna að uppákomur á borð við þessar geti átt sér stað jafnvel þótt stuðningur við þungunarrof sé mikill og víðtækur.
Stjórnendur Providence segja málið í athugun.